Friday, October 27, 2006

Kæru samnemendur.

Þar sem hirðljósmyndari nemendafélagsins hefur svo sannalega ekki látið sitt eftir liggja, er ég býsna hræddur um að leti mín og svívirðilegt hirðuleysi gagnvart embætti mínu hljóti að vera flestum ljós. Eins og ég áréttaði í pistli mínum fyrir tveimur vikum hef ég lofað vikulegum pistlum. Það blasir því við að ég hef ekki staðið við loforð mín. Því hygst ég nú veikum mætti reyna að bera í bætiflákann og skrifa nokkuð ítarlega greinagerð um það sem hefur átt sér stað hér innan veggja síðust tvær vikur.

Að þessu sögðu þykir mér leitt að hryggja lesendur og pota frekar undir þolrif þeirra, með því að tilkynna að óminnishegri hefur sótt mig heim og numið minningarnar á brott eins og gjafvaxta dóttur á óglögglega bjartri sumarnótt.

Það sem ég man er að það var lokasýning á Hvítri kanínu með býsna magnaðri paródíu frá fyrsta bekk og stórskemmtilegu teiti á eftir. Fyrsti bekkur veitti þá um kvöldið hina (næstum) árlegu Viggu (sem enginn í fyrsta bekk í fyrra hafði hugmynd um að ætti að veita) og að þessu sinni féll hun í skaut Söru. Þvínæst var í allra fyrsta skipti afhend svokölluð Tuska fyrir iðnasta nýnemann og var það fræða- og framkvæmdamanneskjan Ásgerður hlaut verðlaunin að þessu sinni. Svo framarlega sem ég veit hefur fjórði bekkur hafið æfingar á Blóðbrullaupi og gengur sjálfsagt vel.

Sýning annars bekks leikara á Grikkjaverkefnum þóttu heppnast með miklum ágætum og var það almennt mat manna að sýningin hafi ekki verið leiðnleg, sem hlýtur að jafngilda fimm stjörnum þegar grískir harmleikir eru annars vegar.

Albert hefur legið undir ámæli upp á síðkastið fyrir vikulegar brandarasendingar sínar. Vill undirritaður fyrir hönd vefstjórnar fordæma slíkan fílupúkahátt, enda mikill fylgismaður spaugs af flestu tagi. Við þá sem hafa verið með leiðindi við Albert vill vefstjórn segja: Skamm, skamm. Þið kunnið ekki gott að meta.

Að lokum er svo sem hægt að benda á að videósafn bókasafnsins fer ört vaxandi og er það prýðileg dægrastytting að tylla sér með kaffibolla og horfa á smart listsýningar frá Mið-Evrópu ef maður hefur ekkert betra að gera. hefur maður nokkuð betra að gera.

Hafi einhver einhverju við þetta að bæta má hann gjarnan hafa samband. ég man hreinlega ekki meira.

Góðar stundir,

Friðgeir.

Thursday, October 26, 2006

enn fleiri myndir komnar
LOKSINS KOMNAR MYNDIR!!!!!!!!!

Niðurstöður söfnunarinnar voru 2176,og það nægir til að kaupa aðgang að Flickr sem ég hef nú gert.Vei Vei. Ég þakka öllum sem settu pening í þetta verkefni og þótt að ekki allir hafi náð að skila inn 50 kalli þá voru sumir sem lögðu meira í söfnuna svo allt gekk þetta að lokum

Fyrstu myndirnar sem birtast eru frá fjölskyldu deginum góða,njótið





Stuðmynd færslunnar að þessu sinni er af Friðgeiri,gleðin leynir sér ekki,þannig á það að vera. Hirðljósmyndari óskar Friðgeiri til hamingju með heiðurinn.

Friday, October 13, 2006

Ágætu nemendur leiklistadeildar, hin útvöldu!

Á þar til gerðum fundi var mér ásamt fleirum falin sú ábyrgð að sjá um að dæla efni inn á þessa síðu gegn því loforði að ég léti eftir mig vikulegan pistil. Glöggir lesendur hafa væntanlega tekið eftir að ég stóð við loforð mitt fyrstu vikuna og síðan ekki söguna meir. Nú er svo komið að ég vil biðja ástkæra samnemendur mína afsökunar, og það sem meira er þá vil ég gera yfirbót. Því hafði ég hugsað mér að tjá mig um sumt það sem gengið hefur á í skólanum og er víst af ýmsu að taka, raunar svo að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Að vandlega ígrunduðu máli held ég samt að það sé best að byrja á að segja eitthvað stórkostlega hlægilegt. Lesendum til hægðarauka verður grínið sérstaklega merkt með þar til gerðum greinamerkjum. Gjörið svo vel:

Nemendur á mismunandi brautum eru að læra eitt og annað mismunandi. Þannig eru leikarar á öðru ári á fullu í Grikkjunum, en annað ár F & F sýndu í vikunni verkefni í líkamsmiðlunarnámskeiði og gerðu mörgum áhorfendum grikk :) með því að koma mörg hver nakin fram. Jæja, en neyðin kennir nöktum nemendum að spinna :), er það ekki?

Segja má að nám við Deildina sé enginn dans á rósum. Þessu komust dansarnemarnir :) að þegar kom að busun. Þar sem dansaranámið er enn sem komið er aðeins eitt ár þá eru engir eldri bekkingar til að framkvæma busun. Dansararnir dóu þó ekki ráðalausir heldur busuðu sig einfaldlega sjálfir. Þeir eru sko aldeilis ekki í sjálfheldu :) þessir dansarar.

Nú í kvöld er gjörningakvöld í skólanum og er ógjörningur :) um það að spá hvað þar fer fram. Nánar um það síðar.

Látum þetta nægja í bili. Fleiri skondnar fréttir í næstu viku. Ég lofa:).

Thursday, October 12, 2006

Nú er málum þannig háttað: til þess að geta sett inn fleiri myndir verðum við að kaupa aðgang að myndasíðu. Það kostar þrjúþúsund krónir fyrir allt árið. Ég mæli sterklega með að við gerum það. En vegna þess að skólafélagið okkar er ekki mjög ríkt þá legg ég fyrir, hér á síðunni bón til ykkar allra.

Ef allir í leiklistardeildinni myndu sjá sér fært um að gefa 50 krónur til styrktar þessu málefni þá yrði okkur borgið.

Kæru samnemendur í næstuviku mun ég starta söfnuninni "Björgum Myndunum frá Glötun"
og mun hún standa alla næstu viku, það er að segja hún hefst á mánudag 16 okt og lýkur 20 okt.

Látið orðið berast.

Með fyrir fram þökk og von um góða þáttöku,

kveðja Obba hirðljósmyndari hins fátæka skólafélags.

Tuesday, October 03, 2006

brátt koma myndir frá famelidagen,frumsýningapartý og fleira,þá koma loksins almennilegar og djúsí myndir, og er það að stóru leyti henni Dundu okkar í fyrsta bekk leikara að þakka, takk Dunda!

hér er smá sýnishorn:










p.s enn á eftir að velja hressustu myndina, þetta er allt svo spennandi og hressandi, stay tuned!!!

O.B.

Monday, October 02, 2006

ATBURÐUR ALDARINNAR!

Þar sem að nemendur dansbrautarinnar eiga sér enga eldribekkinga til að níðast á sér hafa þau ákveðið að taka málin í eigin hendur og busa sig einfaldlega sjálf!

Á morgun, þriðjudaginn 3.október munu nemendurnir sýna Busadans í svarta sal leiklistardeildar á Sölvhólsgötu. Atburðurinn hefst kl.12:30 og tekur u.þ.b. 10-15 mínútur.

Mætið og sjáið dansara niðurlægja sjálfa sig! ;)