Friday, October 27, 2006

Kæru samnemendur.

Þar sem hirðljósmyndari nemendafélagsins hefur svo sannalega ekki látið sitt eftir liggja, er ég býsna hræddur um að leti mín og svívirðilegt hirðuleysi gagnvart embætti mínu hljóti að vera flestum ljós. Eins og ég áréttaði í pistli mínum fyrir tveimur vikum hef ég lofað vikulegum pistlum. Það blasir því við að ég hef ekki staðið við loforð mín. Því hygst ég nú veikum mætti reyna að bera í bætiflákann og skrifa nokkuð ítarlega greinagerð um það sem hefur átt sér stað hér innan veggja síðust tvær vikur.

Að þessu sögðu þykir mér leitt að hryggja lesendur og pota frekar undir þolrif þeirra, með því að tilkynna að óminnishegri hefur sótt mig heim og numið minningarnar á brott eins og gjafvaxta dóttur á óglögglega bjartri sumarnótt.

Það sem ég man er að það var lokasýning á Hvítri kanínu með býsna magnaðri paródíu frá fyrsta bekk og stórskemmtilegu teiti á eftir. Fyrsti bekkur veitti þá um kvöldið hina (næstum) árlegu Viggu (sem enginn í fyrsta bekk í fyrra hafði hugmynd um að ætti að veita) og að þessu sinni féll hun í skaut Söru. Þvínæst var í allra fyrsta skipti afhend svokölluð Tuska fyrir iðnasta nýnemann og var það fræða- og framkvæmdamanneskjan Ásgerður hlaut verðlaunin að þessu sinni. Svo framarlega sem ég veit hefur fjórði bekkur hafið æfingar á Blóðbrullaupi og gengur sjálfsagt vel.

Sýning annars bekks leikara á Grikkjaverkefnum þóttu heppnast með miklum ágætum og var það almennt mat manna að sýningin hafi ekki verið leiðnleg, sem hlýtur að jafngilda fimm stjörnum þegar grískir harmleikir eru annars vegar.

Albert hefur legið undir ámæli upp á síðkastið fyrir vikulegar brandarasendingar sínar. Vill undirritaður fyrir hönd vefstjórnar fordæma slíkan fílupúkahátt, enda mikill fylgismaður spaugs af flestu tagi. Við þá sem hafa verið með leiðindi við Albert vill vefstjórn segja: Skamm, skamm. Þið kunnið ekki gott að meta.

Að lokum er svo sem hægt að benda á að videósafn bókasafnsins fer ört vaxandi og er það prýðileg dægrastytting að tylla sér með kaffibolla og horfa á smart listsýningar frá Mið-Evrópu ef maður hefur ekkert betra að gera. hefur maður nokkuð betra að gera.

Hafi einhver einhverju við þetta að bæta má hann gjarnan hafa samband. ég man hreinlega ekki meira.

Góðar stundir,

Friðgeir.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home